142. löggjafarþing — 30. fundur,  18. sept. 2013.

kynbundinn launamunur.

[15:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í hönd fara nú kjarasamningar og fjármálaráðherra mun fara með þá fyrir hönd ríkisins, og líka er hafið samráð ríkisstjórnarinnar við aðila vinnumarkaðarins á breiðum grundvelli í aðdraganda kjarasamninga. Það er auðvitað mikilvægt við þær aðstæður að við reynum að hafa umgjörð kjarasamninganna eins góða og kostur er og tryggja að kaupmáttarávinningurinn af kjarasamningunum verði eins mikill og mögulegt er, en það er líka mikilvægt að tryggja réttlæti á vinnumarkaði.

Nýlegar kjarakannanir bæði Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Bandalags háskólamanna færa okkur heim sanninn um það að kynbundinn launamunur er enn fullkomlega óásættanlegur. Hægt er að horfa nokkur ár til baka og sjá að það hefur orðið ákveðinn árangur í að draga úr kynbundnum launamun en langt í frá nægjanlega. Við höfum hins vegar dæmi úr fortíðinni um það að hægt er að vinna á kynbundnum launamun með skipulegum aðgerðum og er mjög hollt að muna borgarstjóratíð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í því efni þar sem mikill árangur náðist í Reykjavík.

Ég vil nú velta því hér upp í ljósi hugmyndanna um tilgang kjarasamninganna, að tryggja kaupmátt og tryggja réttlæti, hvort við eigum ekki að reyna að skapa samstöðu um það á vettvangi stjórnmálanna að leggja á það áherslu í væntanlegum kjarasamningum að binda enda á aðstæður þar sem helmingur landsmanna er hlunnfarinn um eðlileg laun fyrir vinnu sína, hvort við getum reynt að ná víðtækri samstöðu um að það verði forgangsatriði að auka réttlætið á vinnumarkaði í komandi kjarasamningum og að við leggjumst öll á árarnar í því jafnt í opinbera geiranum sem og á hinum almenna vinnumarkaði.