143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

kynning á tillögum ríkisstjórnarinnar fyrir stjórnarandstöðuna.

[15:14]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með þeim fulltrúum minni hlutans sem hér hafa tjáð sig og undrast það að okkur hafi ekki verið kynnt málin. Lögð var fram sérstök þingsályktunartillaga um þetta meginstefnumál ríkisstjórnarinnar, sem þurfti í sjálfu sér enga þingsályktun fyrir, en það var til að leita sérstaks samráðs við Alþingi. Það náði þá ekki lengra en þetta. En að sjálfsögðu er nauðsynlegt að minni hlutinn fái kynningu á þessu því að ef hæstv. meiri hluta hér í þinginu tekst að afgreiða fjárlagafrumvarpið til 2. umr. gerum við ráð fyrir því, samkvæmt þessum tillögum, sem við sáum á blaðamannafundinum, að veita eigi sérstakt fjárframlag úr ríkissjóði til að þetta geti orðið að veruleika. En það kannski varðar minni hlutann ekkert um. Það er mjög áhugavert hvaða snúningar eru að verða í þessu máli. Það er þá bara ágætt að það fari að komast á hreint hver þáttur minni hlutans á að vera hér í þingstörfunum.