143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

kynning á tillögum ríkisstjórnarinnar fyrir stjórnarandstöðuna.

[15:18]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að heyra orð hæstv. forseta í þessum efnum. Ég tek undir orð þeirra sem hér hafa talað og lýst yfir áhyggjum af því hvernig sú uppákoma sem hér er að verða endurspeglar afstöðu stjórnarmeirihlutans til samskiptanna í þinginu og hvernig það er á skjön við það sem sagt hefur verið, bæði af hálfu forseta þingsins og svo á tyllidögum af fulltrúum ríkisstjórnarinnar.

Ég held að það sé algjörlega fyrirliggjandi að þær aðgerðir sem kynntar voru um helgina skilji eftir mjög margar spurningar. Þar er alls ekki öllum spurningum svarað. Ég verð að segja, virðulegur forseti, alveg í fullri einlægni að ég taldi ótrúlegt annað en að ríkisstjórnarflokkarnir væru með plan, væru með einhver áform eða áætlun um kynningu og umræðu hér innan þingsins. Það kom mér verulega á óvart og enn meira komu mér á óvart varnarræður hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og umhverfis-, auðlinda- og fleiri málaflokka ráðherra (Forseti hringir.) um þetta mál. Það kemur á óvart en ég vil taka viljann fyrir verkið og ef hæstv. forseti er talsmaður ríkisstjórnarinnar í því (Forseti hringir.) að við ætlum að eiga þessa kynningu og þetta opna lýðræðislega samtal þá fagna ég því.