143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

kynning á tillögum ríkisstjórnarinnar fyrir stjórnarandstöðuna.

[15:26]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil taka fram að ég fagnaði því að þessar hugmyndir væru komnar fram, og er ekkert að fýlupokast út af því. Aftur á móti er alveg gríðarlega mikilvægt að við fáum að ræða þær. Það eru nokkur atriði sem ég vil til dæmis vita: Var þetta hugmynd eða var þetta tillaga? Þetta fór í gegnum ríkisstjórn, þetta fór í gegnum þingflokka stjórnarflokkanna, er búið að samþykkja þetta?

Þá langar mig líka að vita — það er nú umræða sem tengist því sem fram kom hjá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, það var talað um leyndarhyggju og að menn mættu ekki koma að málum. Eruð þið að segja mér að allir stjórnarþingmenn hafi fengið kynningu eftir ríkisstjórnarfund á föstudaginn í hálftíma, klukkutíma, og þeir séu allir búnir að samþykkja endanlega allt það sem þar er? (Gripið fram í.)Það er út af yfir sig merkilegt, sérstaklega með tilliti til þess þegar menn eru að rifja upp hvernig hlutirnir voru áður.

Ég bara bið ykkur um að taka því vel að það er ekkert verið ergja sig yfir öðru; en þegar beðið er um málefnalega umræðu verður maður að hafa upplýsingar. Mörgum spurningum er ósvarað í umræddum tillögum og óskað er eftir því, eða menn hafa bara gert ráð fyrir því, að þær verði lagðar á borðið þar sem forsendurnar eru frá þinginu.