143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

lekinn hjá Vodafone og lög um gagnaveitur.

[15:44]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og þakka líka það frumkvæði hennar að málið verði tekið til umræðu í hv. þingnefnd, ég tel það eðlilegt. Varðandi þetta alvarlega og stóra mál — ég tek undir það sem hv. þingmaður nefndi um alvarleika þess, hann er til staðar. Það er ekki nóg, eins og hv. þingmaður sagði, að setjast niður og fara yfir verklagsreglur með fyrirtækjunum. Ábyrgðin liggur fyrst og síðast hjá viðkomandi fyrirtæki sem hefur axlað þá ábyrgð og viðurkennt að hafa ekki farið rétt með lagarammann og einnig beðist afsökunar á þessum ferlum og skorti á verklagsferlum sem virðist hafa verið til staðar.

Ég tek hins vegar líka undir það með hv. þingmanni — en minni hv. þingmann hins vegar á að túlkun hennar á þessum lögum um gagnavernd er ekki alveg í samræmi við lögin, það eru ekki í gildi lög sem kveða á um að geyma skuli innihald þessara samskipta. Það er einungis um samskiptin sjálf en ekki innihald þeirra. Umræðan um þessi lög hefur verið dálítið villandi, menn hafa útskýrt það þannig að varðveita beri innihald gagnanna í sex mánuði samkvæmt lögum. Það er ekki rétt. Það eru ákveðin lög sem gera ráð fyrir því að hægt sé að fletta upp þeim samskiptum sem átt hafa sér stað en ekki innihaldi samskiptanna, þannig að það sé á hreinu.

Það er alveg ljóst að í einhverjum tilvikum, og það er rétt sem hv. þingmaður segir, það virðist hafa verið hjá fleiri fyrirtækjum en þessu, hafa lögin ekki verið virt. Það gerir ekki bara kröfu um það, að mínu mati, að farið sé yfir það af hálfu fyrirtækisins heldur þarf einnig að fara yfir eftirlitið af hálfu hins opinbera, hvort rétt og eðlilega er á því haldið, hvort það er nægilega öflugt og öruggt. Ég hef þess vegna óskað eftir því innan ráðuneytisins að málið sé skoðað og tel reyndar alveg ljóst að það krefjist þess að við förum í ákveðna úttekt á málinu í heild sinni, lagarammanum, eftirlitinu og starfsemi einstakra fyrirtækja sem lýtur að þessu. Málið er auðvitað það að við verðum að geta tryggt öryggi í fjarskiptum, öryggi í samskiptum á netinu. Það er brýnt og stórt mál sem við verðum að taka mjög alvarlega.