143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

lánsveð.

[16:03]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hafði ætlað mér að beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra sem oddvita ríkisstjórnarinnar eftir flugeldasýningu helgarinnar en hæstv. ráðherra mun vera fjarverandi sökum veikinda og það er ágætur kostur að beina þá enn á ný sömu gamalkunnu spurningunni til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Hún er mjög einföld og þekkt.

Í kynningu helgarinnar var hvergi svo ég fengi heyrt minnst á svonefndan lánsveðshóp, þ.e. nokkur þúsund fjölskyldur sem sitja eftir í bullandi yfirveðsettu húsnæði ef horft er til verðmætis eigna vegna þess að þær fengu lánað veð í húsnæði í eigu þriðja aðila. Hver eru áform hæstv. ríkisstjórnar varðandi málefni þessa hóps? Má treysta því að lánsveðshópurinn verði ekki skilinn eftir?

Mér sýnist augljóst að eðlilegast sé að fara ígildi 110%-leiðar með þennan hóp, sem fólgin er í samkomulagi stjórnvalda við lífeyrissjóði frá því í apríl sl. samanber frumvarp sem liggur líka á borðum þingmanna þar um, flutt af þeim sem hér talar og hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur. Sú niðurfærsla kæmi þá væntanlega til frádráttar eins og í tilviki hinnar almennu 110%-leiðar. Það er alveg ljóst að verði ekki farin slík sértæk leið fyrir lánsveðshópinn mun hann fá takmarkaða og jafnvel í sumum tilvikum nær enga úrlausn á grundvelli hinna almennu aðgerða sem tilkynntar voru um helgina.

Ég tel ekki boðlegt að Alþingi komi sér undan því samhliða afgreiðslu fjárlaga og annarra mála fyrir jólin að svara þessari spurningu: Á að gera að breyttu breytanda eftir því sem hægt er á grundvelli þessa samkomulags lánsveðshópinn jafn settan hinum sem fengu úrlausn samkvæmt 110%-leið eða verður hann skilinn eftir?