146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

þátttaka stjórnarflokka í sérstökum umræðum.

[15:04]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir með tveimur hv. þingmönnum sem hafa komið hér á undan mér og hreinlega kvarta yfir því að hinir tveir stjórnarflokkarnir hafi ekki séð sér fært að taka þátt í sérstökum umræðum í gær. Þær sérstöku umræður vörðuðu skil á skýrslum sem hæstv. forsætisráðherra ákvað að birta ekki fyrr en seint um síðir. Auðvitað hefði verið fullkomið, það hefði verið mjög gott fyrir pólitíkina yfir höfuð, að fá svör frá þessum flokkum um afstöðuna til skýrsluskila hæstv. forsætisráðherra, fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra. Ég held að þeir skuldi kjósendum þau svör, að þeir skuldi lýðræðinu þau svör.

Mér þykir það mjög leitt að þessir tveir þingflokkar skuli ekki hafa tekið þátt í umræðunum út af því að það hefur verið vaninn, jafnvel hjá litlum þingflokkum, að taka þátt í sérstökum umræðum þó að það sé stundum erfitt.