149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

hjálparhlutir fyrir fatlaða.

[15:35]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Við erum sammála um þetta, ég og hv. þingmaður. Þetta snýst ekki einungis um þátttöku á vinnumarkaði heldur þátttöku í samfélaginu öllu, því að taka þátt í menningu, félagsstarfi o.s.frv.

Hv. þingmaður vék í fyrri spurningu sinni að byggingarreglugerð og mig langar að geta þess sérstaklega að þegar ég var umhverfisráðherra á árunum 2009–2013 lagði ég mikla áherslu á samstarf við Öryrkjabandalagið um aðgengiskaflann í byggingarreglugerðinni. Raunar er það svo að nokkrum sinnum hefur verið að þeim kafla sótt og nokkrum sinnum hefur það verið gert í samstarfi við Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp að hrinda slíkri aðför til baka. Það þarf virkilega að standa í lappirnar gagnvart því að aðgengismálin séu í forgangi, ekki bara á heimilum þeirra sem þurfa á betra aðgengi að halda heldur í öllu opinberu rými, í opinberum byggingum o.s.frv. (Forseti hringir.) Það er stórkostlega mikilvægt réttlætismál. Ég verð áfram í liði með hv. þingmanni og Öryrkjabandalaginu í því að standa þann vörð.