149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[15:52]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Örstutt um fundarstjórn, um óundirbúnar fyrirspurnir. Núna er svona aukafyrirspurnatími, er á mánudögum yfirleitt, þar sem einn til viðbótar spyr. Það hafa venjulega verið stjórnarflokkarnir sem taka þetta eina aukapláss sem er allt í góðu.

Framsókn hefur spurt þrisvar það sem af er og alltaf spurt ráðherra Vinstri grænna. Vinstri grænir hafa spurt til skiptis tvisvar, einu sinni ráðherra Sjálfstæðisflokksins og einu sinni ráðherra Framsóknar og Sjálfstæðismenn hafa spurt einu sinni eigin ráðherra. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé rétti vettvangurinn í rauninni, að stjórnarþingmenn séu að spyrja eigin ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum, hvort það sé eðlilegt yfir höfuð. Við höfum séð það í atkvæðagreiðslu að ríkisstjórnarsamstarfið skiptir mun meira máli en nokkrir aðrir hagsmunir.

Maður veltir því fyrir sér hvort óundirbúnar fyrirspurnir, þar sem maður á að vera eftir því sem mér skilst í ákveðnu eftirliti með störfum ráðherra, (Forseti hringir.) séu vel nýttar þegar stjórnarþingmenn eru að spyrja ráðherra ríkisstjórnarinnar. Það eru kannski ágætisspurningar að einhverju (Forseti hringir.) leyti en ég velti fyrir mér hvort þetta sé heppilegur vettvangur.