149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

atvinnuþátttaka fólks með skerta starfsgetu.

253. mál
[17:01]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér fer fram mjög þörf umræða um atvinnuþátttöku og atvinnutækifæri fólks með skerta starfsgetu. Ég er þakklát þeim sem hana hófu.

Mig langar að beina því til þeirra sem eiga eftir að taka þátt í umræðunni hvernig hvata um er að ræða. Margir hafa nefnt hvata í máli sínu. Er þá átt við ráðgjöf, stuðning við þá sem eru óöruggir við að taka fólk með skerta starfsgetu inn í starfsmannahópinn, eða er átt við fjárhagslega hvata í einhverjum tilfellum? Ég held að það sé mikilvægt að við veltum því fyrir okkur.

Ég er mjög ánægð með að heyra það sem hæstv. ráðherra kom inn á um þá vinnu sem farin er af stað, en ég held að framhaldsskólarnir séu í lykilstöðu varðandi samstarf við vinnustaðina. (Forseti hringir.) Ég hef séð slíkt samstarf bera góðan árangur. Því fjölbreyttari vinnustaðir því skemmtilegra og betra vinnuumhverfi.