149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

atvinnuþátttaka fólks með skerta starfsgetu.

253. mál
[17:06]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Mér finnst hún búin að vera mjög góð og hefur verið mikill samhljómur í henni. Ég vil byrja á því að koma inn á það sem hv. málshefjandi nefndi um fjölbreytileikann og að samfélagið hafi ekki tekið við sér: Það er hárrétt, það finnum við alls staðar að samfélagið hefur ekki tekið við sér. Það þarf mikla hugarfarsbreytingu, bæði í samfélaginu sem heild og innan atvinnulífsins, bæði í almenna geiranum og opinbera geiranum.

Það er líka alveg rétt að það þarf hvata inn í kerfið til að ná þessum hugarfarsbreytingum í gegn. Það er einmitt það sem þarf að skoða: Með hvaða hætti er hægt að gera það? Með hvaða hætti gerum við það best? Með hvaða hætti náum við hvað mestum árangri í því? Samfélag er ekki samfélag nema allir geti tekið þátt í því. Þannig samfélag viljum við byggja upp; þar sem allir taka þátt, þar sem allir hafa sitt hlutverk, þar sem allir taka þátt í því að snúa hjólum atvinnulífsins.

Það er gríðarlega mikilvægt.

Ég vil ítreka að í þeirri vinnu þurfum við að horfa til þess hvernig við brúum bilið frá skólanum og yfir í atvinnulífið. Ég vonast til þess að með þeim breytingum og þeirri vinnu sem við erum með í gangi varðandi starfsgetumat, og þá í framhaldi af þeirri vinnu sem vinna þarf samhliða áður en að innleiðingu þess kemur — og ég tek undir með hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni í þeim efnum — þurfi að byggjast upp hvatar þannig að bæði opinber fyrirtæki og almenni markaðurinn skapi fjölbreytt störf fyrir þennan hóp.

Í því sambandi þurfum við að skoða hvatana, með hvaða hætti við byggjum þá upp. Við þurfum svo sannarlega á breytingu að halda þarna og ég vonast til þess að að hafa þingið með á þeirri vegferð því að það tekur tíma að koma þeirri hugarfarsbreytingu í gegn og ná henni að fullu.

Ég þakka fyrir umræðuna. Hún er þörf og mikilvæg og minnir okkur á að þetta skiptir máli á hverjum einasta degi.