131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Staða innflytjenda.

[13:59]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir þessa umnræðu. Ég held að hún sé mjög brýn, ekki bara í tengslum við þá skoðanakönnun sem hér var vísað til heldur er þetta mál þess eðlis að það er mikilvægt að við tökum það upp á þessum vettvangi sem og annars staðar.

Hlutfall erlendra ríkisborgara hér á landi er nokkuð lágt ef við berum okkur saman við önnur lönd, þ.e. 3,5%. Ef við berum okkur saman t.d. við Evrópulönd eins og Austurríki, Þýskaland og Belgíu er það þar í kringum 9%. Það hefur hins vegar verið nokkur fjölgun, hlutfallið var um 2% árið 1950 en er núna um 3,5%. Í einstaka sveitarfélögum er nokkuð hátt hlutfall, t.d. er hæsta hlutfallið í Ísafjarðarbæ, 7,4%, og eftir því sem ég best veit og miðað við þær upplýsingar sem þaðan koma hefur sú sambúð gengið afskaplega vel. Næst kemur Reykjavíkurborg með 4,4% og ég held að við getum fullyrt að tilkoma þess fólks sem hingað hefur komið hafi ekki gert annað en að styrkja og efla höfuðborgina og gera mannlífið fjölbreyttara og betra.

Það á hins vegar að taka mark á viðvörun, það á ekki að leyfa fordómum og óánægju að krauma undir. Við þekkjum dæmin úr nágrannalöndunum, frá frændum okkar og frænkum á Norðurlöndunum, og nú síðast í Hollandi sem sýnir okkur hvað gerist ef slíkt er látið viðgangast. Við eigum að læra af reynslu nágrannaríkjanna og það er ánægjulegt að fólk vilji flytjast til Íslands og setjast hér að. Það styrkir íslenska þjóð og íslenskt þjóðfélag.

Það er hins vegar eðlilegt að þeir sem hingað koma lagi sig að íslensku þjóðfélagi en þar með er ekki sagt að þeir eigi að varpa siðum sínum og venjum fyrir róða. Við viljum ekki að þær kröfur séu gerðar til okkar þegar við flytjum til annarra landa og við skyldum ekki gera þær kröfur til þess góða fólks sem hingað kemur.