131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Kynning á íslenskri list í sendiskrifstofum Íslands.

296. mál
[18:01]

Flm. (Sigríður Ingvarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega er þetta réttmæt spurning hjá hv. þingmanni. Því miður hef ég ekki á takteinum tölur yfir komur í sendiráð en það sem mér finnst mikilvægast í þessu máli er að við skulum velja íslenska list og íslenska hönnun umfram erlenda, þegar verið er að kaupa og mublera upp sendiskrifstofur erlendis — þá á ég bæði við sendiráð sem og aðrar skrifstofur — sé íslenskt valið umfram erlent. Ég nefndi dæmi í ræðu minni áðan um hvernig íslenskri hönnun hefur verið komið á framfæri í gegnum heimsóknir sem þessar.

Sendiherrabústaðir eru oft notaðir fyrir móttökur og fleiri viðburði og mér finnst sjálfsagt að koma íslenskri list og íslenskri hönnun á framfæri á öllum hugsanlegum stöðum ef við getum.