133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skráning og mat fasteigna.

350. mál
[15:25]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að oft hefur verið talið og í fræðunum er það talið vera eðli opinberra stofnana að þenjast út, að stækka, ekki vegna þess að þær hafi einhvern sérstakan metnað til að vera stærri, öflugri eða viðameiri heldur er metnaðurinn það mikill að þær vilja gera vel. Í þessu tilviki er stofnunin að gera mjög vel, hún er að gera mjög fína hluti.

Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að einkaaðilar með þennan metnað og þetta fjármagn á milli handanna hefðu gert jafn vel, ef ekki betur. Ég tel sem sagt að þetta verkefni gæti vel átt heima í höndum einkaaðila og ég held að þá ætti að stefna að því að stofnunin færi yfir til einkaaðila og að ríkið ætti að geta fengið töluvert fjármagn til baka sem gæti þá staðið undir útlögðum kostnaði. Við mættum þá velta fyrir okkur hvernig sá kostnaður færi til baka til þeirra sem hafa staðið undir fjármögnun stofnunarinnar.