137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB -- peningamálastefnan -- lán frá Norðurlöndum.

[13:52]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Eins og ég kom inn á áðan þarf að verða stjórnarskrárbreyting til að þjóðaratkvæðagreiðsla geti verið bindandi, en það er hægt að fara fram með ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég get upplýst hv. þingmann og þingheim allan um að ég mun ekki með nokkru móti með minni sannfæringu liðka fyrir Evrópusambandsaðild á einn eða neinn hátt.

Ég hefði talið eðlilegast að við tækjum fyrst þessa Evrópusambandsumræðu í þinginu og afgreiddum þessar þingsályktunartillögur. Þegar ég horfi yfir þennan sal ber hann greindarlegt yfirbragð, og nægilega greindarlegt til að vísa þeirri aðildarumsókn frá. [Hlátrasköll í þingsal.]