138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

EuroRap-verkefnið.

156. mál
[15:32]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er svo sem engu við þetta að bæta öðru en því að segja að auðvitað er það ánægjuleg þróun sem hefur átt sér stað mörg undanfarin ár við hönnun vega. Þar hefur þetta EuroRap-verkefni auðvitað komið inn líka ásamt fleiri atriðum hjá Vegagerðinni. Við skulum hafa í huga að Vegagerðin er mjög tæknilega sinnuð og heldur m.a. ráðstefnur og veitir styrki til að gera alls konar rannsóknir sem alltaf eiga að vera til þess að bæta umferðaröryggi. Þess vegna er í raun og veru ekki meiru við þetta bæta nema auðvitað að segja að mikill árangur hefur náðst í fækkun slysa, bæði dauðaslysa og alvarlegra slysa, og verðum við þá að hafa líka í huga hve bílaeign landsmanna hefur aukist mikið síðustu ár og umferðin er mikil, en þrátt fyrir það höfum við náð árangri. Það á auðvitað að vera meginmarkmiðið í öllu hjá okkur að fækka slysum, vegna þess að það er mjög þjóðhagslega óarðbært, sama hvort við missum fólk úr vinnu, missum fólk inn á spítala eða í heilbrigðisgeirann. Við getum tekið sem þjóðhagslega óarðbært að þurfa að flytja inn aftur allt til viðgerða á bílum ef aðeins er um eignatjón að ræða, að maður tali ekki um ekki slys eða manntjón.

En auðvitað er margt betra hjá okkur í umferðarkerfinu í dag, sem var byggt af vanefnum á árum áður, og dæmi um það eru ljósastaurar sem eru, eins og hv. þingmaður talaði um, árekstravænir. Það er líka fullt af ljósastaurum meðfram fjölförnum umferðaræðum í kaupstöðum og annars staðar sem eru bara eins og aðrir ljósastaurar og ekki svona árekstravænir. Þannig er það auðvitað líka með vegrið o.fl. En eftir þessu er unnið og við skulum vona að okkur takist það. Það verður og á að vera forgangsatriði við allar þær miklu framkvæmdir sem við erum að vinna að umferðaröryggið verði haft að leiðarljósi og umferðaröryggismál vegna þess að það er það sem við öll stefnum að.