138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

héraðsdómarar og rekstur dómstóla.

185. mál
[18:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er ýmislegt undir hjá okkur í samfélaginu í dag og ljóst að margir þættir ganga nú í gegnum endurskoðun á uppbyggingu og starfsemi. Eitt af því eru dómstólar landsins. Fram hefur komið frumvarp til breytinga á dómstólum og ljóst að það er ýmislegt í pípunum þar sem vert er að huga að.

Ég hef lagt fram fyrirspurn til hæstv. dóms- og mannréttindaráðherra um það hvort leitað hafi verið álits héraðsdómara á landsbyggðinni við gerð tillagna um breytingar á héraðsdómstólunum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að koma því á framfæri að til þessara aðila sé leitað hafi það ekki verið gert, en það mun væntanlega koma fram á eftir.

Ég spyr þessara spurninga vegna þess að ég hef fengið ábendingar og ég veit að fleiri þingmenn hafa fengið ábendingar um að einhver skortur hafi verið á samráði. Ef það er misskilningur er það að sjálfsögðu gott að það byggist á misskilningi. Ég held hins vegar að það sé mikilvægt að það komi fram að einhverjir héraðsdómarar mótmæltu fyrirhuguðum breytingum þegar þær komu fram, en svo virðist sem það hafi kannski ekki náð í gegn eða náð alla leið til hæstv. ráðherra. Það var gagnvart réttarfarsnefnd sem þeir mótmæltu.

Í öðrum lið fyrirspurnarinnar er spurt hvort leitað hafi verið eftir tillögum frá héraðsdómurum um sparnað í rekstri dómstólanna.

Ég held að það sé ekki síður mikilvægt ef markmiðið með breytingu á þessum lögum er annars vegar að breyta skipulagi og það getur verið að hægt sé að gera það og ná fram þá betri skilvirkni og einhverju slíku og hins vegar að spara fjármuni og hagræða í rekstri, að leitað sé eftir tillögum frá þeim sem starfa úti á akrinum eins og ég vil orða það. Ég mun í seinni ræðu minni á eftir koma inn á nokkur atriði sem ég tel vert að huga að varðandi sparnað og ber ég því þessar tvær spurningar upp við hæstv. ráðherra sem ég hef hér farið yfir.