141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

skilgreining auðlinda.

35. mál
[18:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir ræðuna. Hann talaði um landnám og að fara aftur í tímann. Það voru reyndar settar reglur um landnám, að mér skilst. Kona þurfti að leiða kvígu og svo var eldur fyrir karlmenn, þetta var mismunandi eftir kynjum, dálítið merkilegt. Menn gátu farið eftir þeim reglum og helgað sér land.

Svo var ekki þegar kvótinn var settur á. Það var ekki vitað fyrir fram hvaða reglur mundu gilda um það landnám. Ég hugsa að mjög margir hefðu farið af stað og náð sér í veiðiréttindi ef þeir hefðu vitað að til stæði að taka upp þá takmörkun sem bjó til þennan auð.

Hv. þingmaður talaði mest um fiskveiðistjórnarkerfið á Íslandi en við erum náttúrlega að tala um auðlindir almennt. Það er svo merkilegt að sennilega er engin atvinnugrein í heiminum eins mikið bundin lögum, reglum og alls konar skilyrðum og sjávarútvegur á Íslandi. Þetta eru ótrúlega miklar takmarkanir og það er stöðugt verið að breyta þessu. Af hverju, frú forseti? Það er vegna þess að stjórnmálamenn — ég ætla bara að segja það — nota kvótann til að kaupa sér atkvæði. Þeir nota hugtakið þjóð til að segja: Þjóðin á auðlindina, þess vegna ætla ég að taka upp strandveiðar.

Og þeir verða þá vinsælir úti um allt.

Hins vegar er afraksturinn nákvæmlega eins og ef við segðum við bændur: Þið megið ekki heyja með vélum, þið eigið að heyja með orfi og ljá, þá verður líf í sveitunum. (Gripið fram í.)