143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

um fundarstjórn.

[15:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Á síðustu dögum hefur birst mikill kvíði hjá fulltrúum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í fjárlaganefnd vegna framgangs fjárlaga fyrir árið 2014. Ég vil lýsa því hér yfir að það er algjör óþarfi að bera slíkan kvíðboga í brjósti vegna vinnunnar fram undan því að hún gengur vel. Nú er verið að leggja lokahönd á breytingartillögurnar sem koma til með að birtast í 2. umr. Það verða þó nokkrar breytingar á fjárlagafrumvarpinu þannig að þingmenn vinstri flokkanna geta andað léttar og vonandi sýna þeir stuðning þeim góðu breytingum sem fyrirhugaðar eru.

Það skal jafnframt upplýst úr þessum ræðustóli að það hefur verið hefð fyrir því lengi í þinginu í desember að fjárlaganefnd geti fundað þó að þingfundur standi yfir en frá því er skemmst að segja að fulltrúi Samfylkingarinnar hafnaði því á fundi í síðustu viku í fjárlaganefnd (Forseti hringir.) þannig að ég boða að það verði margir kvöld- og næturfundir í desember og bið þá þingmenn fjárlaganefndar að vera vel undir það búna.