143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

um fundarstjórn.

[15:17]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég finn mig knúna til að koma aftur upp vegna þess að ég er hrædd um að hv. formaður og varaformaður fjárlaganefndar hafi eitthvað misskilið mig áðan. Ég hef áhyggjur af því að við höfum örfáa þingfundadaga til að fjalla um þessi mál í þinginu. Þau eru ekki komin fram, það er staðreynd, og ég hef áhyggjur af því að starfsáætlun muni ekki standa. Við færumst nær jólunum og þurfum jafnvel að setja á fundi milli jóla og nýárs. Þess vegna spyr ég hæstv. forseta hvort hann telji að svo sé komið að taka þurfi upp starfsáætlunina og þá er mjög mikilvægt að hv. þingmenn fái að vita það sem fyrst, ekki síst þeir sem hafa um langan veg að fara og þurfa að skipuleggja ferðir heim til fjölskyldna sinna um jólin.

Aðalatriðið er þetta: Höfum við tíma samkvæmt starfsáætlun til að ljúka (Forseti hringir.) þessum stóru málum?