143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs.

169. mál
[19:12]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur þessa spurningu. Eins og hv. þingmaður nefnir er Vatnajökulsþjóðgarður með sérstaka stjórn. Sú niðurstaða varð ofan á, m.a. af því mikla samráði sem þar var haft við undirbúning að stofnun þjóðgarðsins.

Þingvallaþjóðgarður hvílir á gamalli hefð og svo eru Snæfellsjökulsþjóðgarður og hundrað friðlýst svæði undir stjórn Umhverfisstofnunar. Það er ekkert launungarmál að það hefur verið stefna Vinstri grænna í þessum málum að eðlilegt væri að horfa til sameinaðrar þjóðgarðastofnunar sem færi með málefni þjóðgarða og friðlýstra svæða. Þar höfum við líka tekið þátt í málamiðlunum, eins og þegar Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður, og hluti af því samráði og þeirri sátt sem þar náðist byggði á aðkomu heimamanna að stjórn þjóðgarðsins.

Að sjálfsögðu tel ég að það þurfi að hafa slíkt samráð í þessu tilfelli en það er okkar stefna, þó að gerðar hafi verið málamiðlanir áður eins og ég segi, að það væri eðlilegt að þessi svæði væru undir einni þjóðgarðastofnun. Einhverjir hafa haft þá skoðun að sérstaklega þurfi að horfa til Þingvallaþjóðgarðs í ljósi þinghelgi í þeim efnum og það held ég að sé úrlausnarefni en ekki hindrun í þessu máli. Vafalaust má finna einhverjar lausnir á því. Markmiðið með tillögunni hvað varðar þjóðgarðinn á að vera skýrt, síðan þarf að ræða útfærslur.

Þetta hefur verið okkar stefna og ég tel raunar að það muni skila talsverðum samlegðaráhrifum, getum við sagt, ef við horfum á þessi svæði sem eina heild.