143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

varðveisla menningararfleifðar á stafrænu formi.

196. mál
[19:49]
Horfa

Flm. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var áhugavert að hlusta á hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur taka þetta með þeirri nærnálgun eins og hún gerir miðað við ástandið sem við okkur blasir í dag; ný kynning á PISA-könnun og forgangsröðun á Ríkisútvarpinu vegna niðurskurðar.

Það er kannski einmitt með þeim augum sem við eigum að líta menningararfinn, hann er jú það sem er að gerast í samfélaginu á hverjum tíma og það eru einhverjir sem búa hann til, hann verður ekki til af sjálfu sér. Einmitt það sem er til í Ríkisútvarpinu á gömlum spólum — viðtöl, tónlist flutt af löngu gengnu fólki, þættir þar sem talað er við fólk sem löngu er horfið — þetta er að sjálfsögðu hluti af þeirri menningararfleifð sem tillagan að mínu mati á að taka til.

Þar sem þekkingin er fyrir hendi ætti það að auðvelda vinnu í að móta heildstæða markvissa stefnu til að nýta þá auðlind sem er í því fólki sem hefur þekkinguna í dag til að fara í þessa söfnun, þó svo að við þurfum síðan tæknilega útfærslu á því hvernig við komum henni á hið stafræna form sem gagnast okkur með nýrri tækni hverju sinni.

Það er eitthvað í okkar samfélagi sem við þurfum núna pínulítið að fara að velta fyrir okkur, af því að ég mælti hér rétt áðan fyrir afreksstefnu og er núna að mæla fyrir varðveislu. Það er eitthvað að þegar koma kannanir í röð sem sýna að ungt fólk hreyfir sig minna en fólk sem er á bilinu 70–80 ára og það er eitthvað að þegar þriðji hver strákur getur ekki lesið sér til gagns. Þetta eru samfélagshreyfingar sem okkur ber að skoða. Þetta er hluti af þeirri menningu sem við lifum í í nútímanum og hún er okkar.