146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

rekstrarvandi hjúkrunarheimila.

[10:54]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Ég er sammála hv. þingmanni um að málefni hjúkrunarheimilanna séu mjög mikilvæg. Það dylst engum að mörg þeirra hafa verið í talsverðum rekstrarvanda. Reksturinn hefur sérstaklega þyngst eftir hrun þar sem, eins og víða annars staðar, greiðslur fylgdu ekki fullkomlega kostnaði eða verðlagi. Sá rammasamningur sem hv. þingmaður vitnar til og lagður var fram og samþykktur af öllum rekstraraðilum hjúkrunarheimila, minnir mig, seint á síðasta ári, setur viðbótarfjármagn inn í málaflokkinn og hefur auðvitað hjálpað til. En það er engin spurning að það þarf að horfa áfram á þennan rekstur og eiga samtöl við rekstaraðila.

Á þeim vikum sem ég hef gegnt embætti ráðherra hef ég átt fundi með Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, rætt um þessi mál og skoðað. Ekki hef ég átt fundi með öllum sveitarfélögum sem reka hjúkrunarheimili en einhverjum þeirra. Ég á m.a. fund seinna í dag með sveitarfélagi sem rekur hjúkrunarheimili. Við erum meðvituð um þetta mál og erum sífellt að skoða það. Ég er mjög viðkvæmur gagnvart því og hef mikinn skilning á því að það skipti máli fyrir þá sem reka hjúkrunarheimili að það sé hægt að gera á sómasamlegan hátt og samkvæmt lögum og reglum.