146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

kostnaður við ný krabbameinslyf.

[11:04]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Jú, það er vissulega vilji Bjartrar framtíðar að standa eins vel og mögulegt er að þessum málum, eins og kemur fram í svarinu fyrir kosningar sem hv. þingmanni er hugleikið.

Nú er það svo að eftir hrun gekk íslenskum yfirvöldum illa að innleiða ný lyf af sama krafti og öðrum þjóðum sem hafa staðið sig hvað best í því. En okkur hefur aðeins tekist að herða okkur í því og höldum því áfram. Það er samt mikilvægt að benda á að það er ekki sjálfkrafa öruggt að ný lyf séu alltaf best. Það tekur ákveðinn tíma að innleiða lyf, komast að því hversu gagnleg þau eru, hverjar eru aukaverkanir o.s.frv. Því er ekki alveg víst að það sé best fyrir íslensk heilbrigðisyfirvöld að vera fyrst (Forseti hringir.) heldur að við séum í fyrstu bylgju, ef svo má segja, þjóða þegar kemur að innleiðingu nýrra lyfja með tilliti til aukaverkana og virkni þeirra lyfja. En auðvitað viljum við gera sem best. Ég mun gera mitt besta sem heilbrigðisráðherra til að standa þar.