146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

staðan í ferðamálum - leiðir til gjaldtöku og skipting tekna.

[11:56]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra ferðamála fyrir að verða við beiðni minni um að taka þetta mál á dagskrá. Hér ræðum við um stöðuna í ferðamálum. Staðan er að mörgu leyti góð en að einhverju leyti slæm. Hún er góð að því leyti að hingað streyma ferðamenn og fjöldi þeirra eykst frá ári til árs en slæm að því leyti að ákveðin svæði eru komin að þolmörkum hvað varðar álag og fjölda meðan önnur geta vel tekið á móti fleirum.

Reyndin er sú að ferðaþjónustan er orðin ein meginstoð í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar en tekjurnar dreifast misjafnlega og er umhugsunarefni hvort eðlilegt sé að tekjurnar renni að mestu leyti til suðvesturhornsins á meðan önnur svæði bera kostnað en fá litlar tekjur. Á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur ítrekað verið rætt um mikilvægi þess að sveitarfélögin fái auknar tekjur af komu ferðamanna til landsins. Eins og staðan er í dag fá sveitarfélög tekjur af útsvari þeirra sem vinna við ferðaþjónustu auk fasteignaskatta af mannvirkjum sem tilheyra ferðaþjónustunni. Þær tekjur renna af mismiklum þunga til sveitarfélaga og telja sum sig vera nokkuð afskipt vegna þess. Þau telja útgjaldaþrýsting vera fyrir hendi en litlar sem engar tekjur í augsýn til að standa undir nauðsynlegum kostnaði við uppbyggingu og fleira.

Við Framsóknarmenn höfum talað fyrir því að beinum tekjum sem ríkið fær af ferðamönnum verði deilt þannig að 1/3 renni beint til ríkisins, 1/3 til sveitarfélaga og 1/3 í uppbyggingarsjóð. Þannig er hægt að dreifa peningunum þangað sem tekjurnar eru minnstar og þörfin mest þannig að kerfið haldi áfram að stækka og dreifa ferðamönnum skipulega um landið.

En ef við ætlum í raun að dreifa álaginu þurfum við að ráðstafa tekjum ríkisins þar sem sóknarfærin eru minnst fyrir einkaaðila. Hið opinbera þarf að standa undir því að byggja upp grunninnviði vítt og dreift um landið til að styrkja heimamenn í uppbyggingu og skapa grundvöll til tekjuöflunar. Það er góð leið til að jafna tækifæri og styrkja jafnrétti til búsetu.

Hæstv. forseti. Töluvert hefur verið gert úr því að aukin gjaldtaka á ferðamenn hafi fælandi áhrif og geti dregið úr ásókn þeirra til landsins. Það tel ég, líkt og starfshópur á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga reyndar líka, vera óþarfa áhyggjur því að ekki veit ég betur en að alvanalegt sé að menn greiði fyrir aðgang að ferðamannastöðum annars staðar og ýmsir skattar og gjöld séu á gistingu. Það er ekki það sem ferðamenn athuga fyrst þegar ákvörðun um ferðalag er tekin.

Aftur á móti eru meiri líkur á að aðgerðaleysi varðandi nauðsynlega uppbyggingu geti laskað orðspor landsins og haft skaðleg áhrif á markaðssetningu Íslands sem ferðamannalands.

Í tíð síðustu ríkisstjórnar var hafin markviss vinna við að opna fleiri gáttir inn í landið. Unnið hefur verið með landshlutasamtökum og heimamönnum í að koma beinu flugi til Akureyrar og Egilsstaða. Það er langhlaup og krefst eftirfylgni. Gaman væri að heyra hvort ekki er unnið að því verkefni áfram af fullum þunga.

Stór hluti ferðamanna kemur til landsins til að upplifa náttúruna og jafnvel er alveg sama þótt þeir komi ekki á suðvesturhornið eða til höfuðborgarinnar. Svo má líka benda á að það skiptir ekki máli hvort hringferð um landið hefst í Reykjavík, á Akureyri, Egilsstöðum eða Seyðisfirði, en það getur skipt okkur miklu máli að dreifa ferðamönnum, styrkja byggðirnar hringinn í kringum landið og fjölga atvinnutækifærum. Ýmislegt kemur í veg fyrir dreifingu ferðamanna. Helst vil ég nefna samgöngur, bágborna vegi og dýrt flug en líka má geta sér þess til að eitthvað vanti upp á markaðssetningu.

Hæstv. forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er stuttur kafli um ferðamál. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Vægi ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar endurspeglist í verkefnum stjórnsýslunnar og langtímastefnumótun. Á næstu árum verður lögð áhersla á verkefni sem stuðla að samhæfðri stýringu ferðamála, áreiðanlegri gagnaöflun og rannsóknum, náttúruvernd, aukinni arðsemi greinarinnar, dreifingu ferðamanna um land allt og skynsamlegri gjaldtöku, t.d. með bílastæðagjöldum.“

Þetta er allt gott og gilt en almennt orðað eins og gengur svo sem með plagg af þessu tagi. En ég velti fyrir mér hvað menn telji skynsamlega gjaldtöku. Samtök atvinnulífsins hafa lagt til að gjaldtaka verði frjáls af virðisaukandi ferðaþjónustu, einhverjir telja leiðina til stýringar á ferðamannastaði vera þá að ferðamenn greiði fyrir aðgengi og upplifun, þ.e. þeir sem njóta, þeir borga, það sé ekki nóg að hafa gistináttagjald og komugjald til að stýra álagi heldur þurfi meira til.

Ég vil því spyrja: Hyggst ráðherra beita sér fyrir gjaldtöku af ferðamönnum og með hvaða hætti? Hvaða afstöðu hefur ráðherra til komugjalda? Hvernig ætlar ráðherra að tryggja sveitarfélögum auknar tekjur af ferðamönnum? Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að dreifa ferðamönnum um landið og þá hvernig?