149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

svar við fyrirspurn.

[15:10]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kem hingað upp til að taka undir það sem fram hefur komið varðandi það að ótækt er hversu mikill dráttur er á svörum við fyrirspurnum, sérstaklega þegar um er að ræða mál sem skipta okkur öll, allan almenning í landinu, miklu máli. Við erum að tala um hvernig kerfið okkar virkar og hvort þar á sé einhvers staðar brotalöm.

Mig langar líka til að vekja aðeins athygli á einu, þ.e. að það virðist vera frekar óskýrt hvort svona fyrirspurnir lifa af þingfrestun eða ekki. Það virðist ekki vera algjört samræmi þar á. Stundum eru svörin að berast að sumri. Stundum þarf að bera fyrirspurnina fram aftur og jafnvel hefur verið ýjað að því að það þurfi að fara fram ný skýrslubeiðni þegar nýtt þing kemur saman. Þetta varðar ekki bara þann þingmann sem hér stendur, sem er tiltölulega nýkomin, (Forseti hringir.) heldur virðast eldri og reyndari þingmenn fá mjög misvísandi upplýsingar hvað þetta varðar. En upplýsinga- og eftirlitshlutverk Alþingis er auðvitað eitt af mikilvægustu hlutverkum þingsins og við verðum að laga þetta.