149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

sálfræðiþjónusta í fangelsum.

137. mál
[17:19]
Horfa

Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir seinni spurninguna sem lýtur að annars konar heilbrigðisþjónustu.

Ég tek heils hugar undir að það er mjög brýnt að fara í allsherjarskoðun á því. Kannski maður hvetji hæstv. heilbrigðisráðherra til að fara í hana.

Ég hef lagt fram fyrirspurn á þingi varðandi stöðu geðheilbrigðismála í fangelsum og bíð eftir því að fá að eiga orðastað við hæstv. ráðherra um hana. Það yrði einhvern tímann á dagskrá, vonandi á næstunni.

En varðandi annars konar heilbrigðisþjónustu má segja að hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson hafi svolítið lesið hug minn þarna. Maður óttast að þegar málið verður einhvern veginn víðfeðmara glatist fókusinn. Stundum getur verið gott að taka mjög afmarkað mál og reyna að klára það, reyna að koma því í gegn, í staðinn fyrir að ætla sér of mikið í fyrstu atrennu.

En nú verð ég eiginlega bara að kasta boltanum aftur til hv. þingmanns sem situr í velferðarnefnd og skora á hann að fara í einhverja rækilega skoðun á heilbrigðisþjónustu í fangelsum landsins. Ég held að ekki sé vanþörf á.