151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

staðfesting ríkisreiknings 2019 .

277. mál
[16:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla í seinna andsvari að vísa í þessa umfjöllun í endurskoðunarskýrslu ríkisendurskoðanda. Þar kemur fram að í ýmsum köflum endurskoðunarskýrslunnar sé nánar vikið að atriðum þar sem ákvæðum lagagreinarinnar er ekki fylgt. Þá er verið að vísa í 56. gr. um gerð ríkisreiknings. Þar er um að ræða að framsetning og flokkun er ekki samkvæmt alþjóðlegum hagskýrslustaðli, reikningstölur með samanburði við ráðstöfunarheimildir reikningsársins, fjárlög og reikningstölur næstliðins árs og þá vantar yfirlit sem sýnir tekjur ríkissjóðs af nýtingu auðlinda í ríkiseigu og vegna takmarkaðra réttinda sem stjórnvöld ráðstafa, samanber 7. tölulið 2. mgr. 56. gr. Hv. þm. Oddný G. Harðardóttir bendir á það í ræðu sinni. Síðan segir ríkisendurskoðandi, með leyfi forseta:

„Enn sem komið er eru ekki glögg skil á milli þess sem lagagreining kveður á um varðandi fyrri og seinni hluta ríkisreiknings. Séryfirlit, sem fylgja ríkisreikningi og mynda hluta af honum, ná m.a. til liða sem lagagreinin kveður á um að skuli vera í fyrri hluta reikningsins.“

Þá vantar væntanlega upplýsingar í samræmi við staðlana til að setja í fyrri hluta sem hægt er að byggja á í séráliti í seinni hluta. Þá er vinnan fram undan að kalla eftir upplýsingum um það hvaða reikningsskilastaðall þetta nákvæmlega er, eða fleiri eftir atvikum, og hvaða upplýsingar við þurfum. Það er alveg hárrétt, sem hv. þingmaður bendir á, og það var auðvitað í vinnunni í aðdraganda þess að við samþykktum þessi lög í hv. fjárlaganefnd, að kalla eftir þessum upplýsingum.