151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 168/2020 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

302. mál
[16:27]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá utanríkismálanefnd. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti og Jónas Birgi Jónasson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þetta er ákvörðun nr. 168/2020 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn, en það er viðauki sem fjallar um umhverfismál, og fella þá inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2019/631 um að setja staðla um frammistöðu vegna losunar koltvísýrings fyrir nýjar fólksbifreiðar og ný, létt atvinnuökutæki og um niðurfellingu eldri reglugerða um þessi mál.

Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.

Undir þetta nefndarálit skrifar sú sem hér stendur, Bryndís Haraldsdóttir, og ásamt mér hv. þingmenn Sigríður Á. Andersen, Ari Trausti Guðmundsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir.

Til að segja þetta kannski á mannamáli tengist reglugerðin Parísarsáttmálanum. Markmið okkar með henni er að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda frá ökutækjum og ná því fram til ársins 2030. Bara til að rifja upp, því að umhverfismálin koma stundum, kannski of sjaldan, hér til umræðu, þá var í Parísarsáttmálanum sett markmið um að halda hækkun loftslagshita á jörðinni frá iðnbyltingu undir 2°C. Þess vegna er talið nauðsynlegt að umbylta samgöngukerfi allra aðildarlanda sáttmálans þannig að kolefnisfótspor verði minna en nú er og mögulega ekkert. Eldri reglugerðir, frá árinu 2009 og 2011, hafa sem sagt tekið á þessu en hér er verið að auka enn frekar kröfurnar og þær reglugerðir eru felldar út. Settir eru fram staðlar um frammistöðu vegna losunar koltvísýrings frá nýjum ökutækjum og skylda lögð á framleiðendur í þeim efnum. Þess ber þó að geta að lagabreytingin mun í framkvæmd í raun ekki hafa nein áhrif hér á landi þar sem hér eru ekki neinir framleiðendur ökutækja.

Til að þess sé líka getið teljum við þetta vera í fullu samræmi við þinglega meðferð EES-mála. Þegar til stóð að taka gerðina upp í EES-samningi fékk nefndin það til umsagnar. Þá fengum við umsagnir frá umhverfis- og samgöngunefnd þingsins svo og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og þar komu ekki fram neinar athugasemdir. Við leggjum því til að þessi tillaga verði samþykkt.