151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[16:58]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem við erum að gera hér, og ég sagði það í framsöguræðu minni áðan, er að við erum að skapa ákveðinn grunn og ákveðin réttindi fyrir íþróttafélögin sem þau vita að þau geta sótt í til 30. júní nk. Það er verið að meta kostnaðinn af því miðað við þær forsendur að aðgerðirnar gildi til 31. desember. Það eru forsendurnar sem við erum að vinna með. Miðað við upplýsingar sem við fáum frá íþróttahreyfingunni sjálfri ætti þetta að slá nærri lagi. En við getum ekki keyrt út neinn tölulegan grunn um öll íþróttafélög landsins, hversu margir eru á launaskrá, hversu mikið það er. Þetta er einfaldlega kostnaðaráætlun sem unnin er í samstarfi við íþróttahreyfinguna sjálfa. Dragist ástandið á langinn, fram á nýtt ár, má reikna með að þessar upphæðir geti breyst. Ég bendi líka á að fjármálaráðuneytið gerði ekki sérstaka athugasemd við kostnaðarmatið á þessu. (Forseti hringir.) Það er með þetta eins og annað: Þegar miðað er við aðgerðir sóttvarnalæknis (Forseti hringir.) þá vitum við hreinlega ekki með hvaða hætti málinu vindur fram til 30. júní en við erum að skapa (Forseti hringir.) tryggingu fyrir félögin vegna þess að ríkissjóður ætlar að taka þetta á sig, en ekki félögin sjálf.