151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[17:27]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar. Jú, ég held að rík ástæða sé til þess að fela íþróttahreyfingunni, íþróttafélögunum, það verkefni að sækja þessi týndu börn en líka þau týndu ungmenni sem nú eru hætt að mæta á æfingar. Ég spyr mig hvort ekki sé ástæða til að víkka þennan styrk upp fyrir 18 ára aldurinn þannig að hann nái ekki bara til barna heldur líka til ungmenna, ef þau greiða einhvers konar þátttökugjald fyrir sína iðkun. En það er svo margt sem mig langar að ræða um íþróttastarfið núna, það er líka hópurinn 15–20 ára sem ég hef mjög miklar áhyggjur af varðandi íþróttastarfið og framhaldsskólana. Ég hef áhyggjur af krökkum sem eru að einangrast algerlega af því að þau fara hvorki í skóla né í íþróttastarf. Það er svo merkilegt að þegar við ræðum þetta hér á þinginu, hvort sem um er að ræða málefni framhaldsskólanema eða íþróttastarf, þá hellast yfir okkur þingmenn tölvupóstar og skilaboð frá áhyggjufullum foreldrum, hvort sem um er að ræða foreldra afreksbarna, afburðanemenda eða félagslega einangraðra barna og ungmenna. Það álag og þeir erfiðleikar sem við glímum við hér virðast ekki fara í manngreinarálit. Sum virðast bara pluma sig ágætlega og þola þetta ágætlega en það er allur gangur á því hvort það er félagslega einangrað barn, afreksíþróttabarn, afburðanemandi eða barn sem er mjög félagslega virkt. Ég held að við verðum að skoða þetta allt saman og reyna eins og við getum (Forseti hringir.) að efla íþróttastarf, ekki bara beint íþróttastarf heldur að efla félögin til að halda utan um börn og unglinga um allt land.