151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

fjölmiðlar.

367. mál
[19:54]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra sé kominn fram með þetta mál. Ég hef fylgst með því á mörgum stigum þess og hef deilt þeirri skoðun með hæstv. ráðherra að Ísland eigi ekki að vera eitt Norðurlanda sem styðji ekki einkarekna fjölmiðla. Það er augljóst að staða einkarekinna fjölmiðla hefur verið erfið um hríð og verður æ erfiðari. Hæstv. ráðherra kom ágætlega inn á þá sugu auglýsinga, og tekna þar með, sem erlendar veitur og vefir eru og við þekkjum öll hvernig kórónuveiran hefur haft áhrif á nánast alla starfsemi hér og ekki síst fjölmiðla í gegnum auglýsingar ásamt fleiri þáttum.

Mig langaði, forseti, að eiga örlítinn orðastað við hæstv. ráðherra varðandi það sem ég nefndi með erlendar veitur. Hæstv. ráðherra kom aðeins inn á það. Ég er sannfærður um að horfa þurfi akkúrat mjög víðfeðmt á þessi mál. Skoða þarf innlenda fjölmiðlamarkaðinn, einkareknu fjölmiðlana, en ekki síst að horfa til þess hvernig auglýsingar fara á Facebook og YouTube og hvað þeir heita þessir vefir sem fólk þekkir sem er færara á internetinu en ég. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort samhliða styrkjaumhverfi fyrir fjölmiðla sé hæstv. ríkisstjórn að huga að einhverjum aðgerðum hér innan lands og jafnvel þá í einhverju samstarfi á alþjóðasviði.