152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

um fundarstjórn.

[13:42]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Vegna þess að það skiptir máli hvernig við segjum hlutina þá langar mig aðeins að nefna þá lítilsvirðingu sem felst í því að dómsmálaráðherra, eða innanríkisráðherra eins og hann heitir víst í dag, kalli það VIP-meðferð að Alþingi taki til afgreiðslu hluta af umsóknum um ríkisborgararétt. Það er kannski þannig í heimi Sjálfstæðismanna að þetta sé einhver flýtimeðferð fyrir vildarvini, en í reynd er veiting ríkisborgararéttar með lögum frá Alþingi þrautavaraleið fyrir fólk sem ekki uppfyllir ströng skilyrði laganna en á engu að síður heimtingu á ríkisborgararétti. Við erum að tala í yfirgnæfandi meiri hluta um fólk á flótta sem getur ekki sýnt fram á fæðingarvottorð eða önnur skilríki sem eru nauðsynleg samkvæmt lögunum, sem hefur þurft að reiða sig á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga eða eitthvað annað, sem verður til þess að stjórnsýslustofnunin Útlendingastofnun getur ekki (Forseti hringir.) veitt þeim jákvæða afgreiðslu. Þetta er ekki VIP-meðferð. (Forseti hringir.) Þetta er meðferð í þágu mannúðar. Og að ráðherrann haldi umsóknum hjá sér (Forseti hringir.) og neiti að afhenda þinginu er mannvonska.