152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

loftslagsmál.

[14:20]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Það er kannski eftir efninu að við erum að byrja um 20 mínútum seinna en til stóð vegna þess að í loftslagsmálum þá erum við á eftir áætlun, hvort sem litið er til Íslands eða heimsins alls. Ekkert ríki heims hefur gert nógu mikið. Ekkert ríki heims hefur gripið nógu snemma í taumana. Það er hins vegar ekki allt glatað, síður en svo. Og svo ég byrji nú ekki bara á neikvæðum nótunum þá má ég til með að hrósa hæstv. ráðherra hér í upphafi. [Hlátur í þingsal.] — Þetta gerist. Það er nefnilega svo, eins og oft hendir með stefnuyfirlýsingar, að samstarfssáttmáli ríkisstjórnarinnar er aðeins of óljós, með aðeins of ótímasettum aðgerðum víða. Ég var t.d. glaður að sjá að ríkisstjórnin ætlaði ekki að gefa út nein leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögunni, samkvæmt sáttmálanum, en klóraði mér dálítið í kollinum yfir því hvernig hún ætlaði að gera það, hvort hún ætli að leggja fram frumvarp eða ekki. Þá svaraði ráðherra bara því með að setja í samráðsgáttina að hann ætlaði að leggja fram frumvarp. Það er vel gert, meira svona.

En stóru spurningarnar standa samt eftir óleystar. Hver heildarstefna þessarar ríkisstjórnar er í loftslagsmálum er ekki fullkomlega skýrt í þessum samstarfssamningi flokkanna. Jú, það er talað um að setja sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt í losun, sem er reyndar aðeins of lítið ef við ætlum að draga upp neikvæðnihattinn aftur, það þarf að gera betur, en hvernig nákvæmlega á að gera þetta er óljósara. Þess vegna vil ég spyrja ráðherrann bara dálítið konkret spurningar um það hvað er fram undan. Fyrsta spurningin snýr að samskiptum ríkisins við Sameinuðu þjóðirnar vegna loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Ísland, eins og allur heimurinn, var rassskellt í Glasgow í haust, við rassskelltum okkur sjálf með því að öll ríki samþykktu ályktun þess efnis að ekki hefði verið gengið nógu langt í uppfærslu landsmarkmiða ríkjanna. Þess vegna þyrftu þau ekki að koma fimm árum seinna eins og venja er samkvæmt Parísarsamkomulaginu, heldur strax á næsta ári með uppfærð markmið og gera betur. Það er nefnilega þannig að Parísarsamningurinn gerir ráð fyrir því að slík uppfærsla eigi sér stað níu mánuðum fyrir aðildarríkjafund. Næsti fundur verður í Sharm El-Sheikh 7. nóvember, þannig að níu mánaða fresturinn sem Sameinuðu þjóðirnar setja rennur út á mánudaginn kemur.

Þess vegna er fyrsta spurningin: Hvenær ætlar ríkisstjórnin að kynna uppfært landsmarkmið í loftslagsmálum, eins og okkur var sagt að gera, eins og við sögðum okkur sjálfum að gera í Glasgow í haust? Og í hverju mun það felast? Ekki bara gagnvart loftslagssamningnum sjálfum heldur líka Evrópusambandinu sem við erum í samfloti með. Ég vona að svarið við því síðasta í þessum lið sé bara já, hvort uppfært markmið muni verða í takt við það sem er nauðsynlegt til að standa við markmið Parísarsamningsins um að halda hlýnun innan 1,5°C vegna þess að 55% samdrátturinn er það bara ekki, það þarf að gera betur.

Til að komast að árinu 2040, sem ríkisstjórnin hefur sett sér sem það ár þar sem kolefnishlutleysi verði náð, þótt okkur vanti reyndar enn þá skilgreiningu á því hvað í því felst, væri mjög æskilegt, og þetta kom líka fram í Glasgow, að vera með einhver áfangamarkmið á þeirri leið til þess að ríkisstjórn dagsins í dag grípi örugglega til aðgerða. Þess vegna er spurningin hvort ráðherra hyggist lögfesta þannig áfangamarkmið. Við lögðum t.d. til í frumvarpi mínu um loftslagsmál að lögfesta markmið um 70% samdrátt árið 2030 svo fólk hafi eitthvað að stefna að. En ef ekki, hvernig ætlar ríkisstjórnin þá að tryggja að þessi markmið muni nást? Síðan eru öll verkfærin sem þarf til að ná þessu fram; aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, loftslagsmat á annarri stefnumörkun, eins og fjármálaáætlun og samgöngufjárfestingum og svoleiðis. Þetta eru allt plögg sem eru sum nú þegar búin að fara í gegnum hendur okkar þingmanna án þess að vera metin út frá nýjum markmiðum í loftslagsmálum. Hvenær megum við búast við því að þetta verði allt saman endurskoðað?

Og svona rétt rúsínan í pylsuendanum: Ætlar ráðherra ekki örugglega að tryggja aðkomu ungs fólks við alla þessa stefnumörkun? (Forseti hringir.) Það er líka lykilatriði, sérstaklega í landi eins og okkar þar sem félagasamtök ungs fólks hafa dregið vagninn í þessari umræðu síðustu ár.