152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

loftslagsmál.

[14:36]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Í árlegri landsskýrslu Umhverfisstofnunar til ESB vegna Kyoto-sáttmálans og Parísarsamkomulagsins kemur fram eftirfarandi: Kyoto-tímabilinu lauk 2020, það verður gert upp á næsta ári, árið 2023. Tímabil Parísarsáttmálans hófst í fyrra, 2021, og það er til 2030. Á tímabilinu frá 1990 jók Ísland heildarlosun gróðurhúsalofttegunda um rúmlega 30%. Samkvæmt Kyoto-sáttmálanum lofuðu Íslendingar að draga úr losun um 20% árið 2020, fyrir tveimur árum, miðað við 1990. Þeir juku um 30%. Það eru engar líkur á að staðið verði við loforð Íslands í Kyoto-sáttmálanum svo við höfum það alveg á hreinu.

Varðandi Parísarsáttmálann þá þurfum við líklega að kaupa kolefnislosunarheimildir fyrir milljarða króna. Og annað tengt loftslagsmálum. Raforkuframleiðsla Íslands er græn nánast að öllu leyti, algjörlega 100%, en við seljum upprunavottorð og 87% af raforku Íslands eru ekki græn. Hún er búin til úr kjarnorku og kolefnum samkvæmt reglum Evrópusambandsins. Þetta hefur áhrif úti í Evrópu sem leiðir til þess að verksmiðjur sem spúa út koltvísýringi, sem framleiða rafmagn, skreyta sig með íslenskum fjöðrum. Það eykur losun í Evrópu á gróðurhúsalofttegundum, svo það sé algjörlega á hreinu. Ísland er beinlínis að stuðla að því og styðja það að Evrópusambandið mengi og vinni gegn loftslagsmarkmiðunum. Við getum flutt þennan vanda út. Það er gert m.a. með þessum hætti.

Ísland getur gert margt í loftslagsmálum. Þar koma orkuskiptin efst og það er rafbílavæðingin. Ísland er ótrúlega seint þegar að því kemur, langt á eftir Norðmönnum, langt á eftir. (Forseti hringir.) Varðandi skipaflotann þá er það mjög takmarkað sem Ísland getur gert. (Forseti hringir.) Ég hef sjálfur kannað það varðandi smábátana og það er einfaldlega mjög takmarkað, það er fyrst og fremst í ferjusiglingum sem eitthvað er hægt að gera.