152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[16:48]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um málefni innflytjenda. Er þetta í þriðja sinn sem þetta frumvarp er lagt hér fram, þó í örlítið breyttri mynd núna. Lög um málefni innflytjenda tóku gildi 28. nóvember 2012 en markmið þeirra er að stuðla að samfélagi þar sem allir geta verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna. Að þessu markmiði er unnið með því að samþætta hagsmuni innflytjenda í allri stefnumótun, stjórnsýslu og þjónustu hins opinbera, stuðla að víðtæku samstarfi, efla fræðslu og miðlun upplýsinga og styðja við rannsóknir og þróunarverkefni er varða málefni innflytjenda.

Í frumvarpinu eru lagðar til tvær breytingar á lögunum, annars vegar breytingar á hlutverki Fjölmenningarseturs er varðar samræmda móttöku flóttafólks og hins vegar breytingar á nefndaskipan í innflytjendaráði.

Á síðustu árum hafa orðið töluverðar breytingar á fjölda þeirra einstaklinga sem koma á eigin vegum til landsins og fá hér alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli ríkra mannúðarsjónarmiða. Á síðustu tveimur árum hafa yfir 1.200 einstaklingar fengið viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttafólk eða fengið dvalarleyfi á grundvelli ríkra mannúðarsjónarmiða. Þessir einstaklingar eru komnir með réttindi sem m.a. eru tilgreind í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og í lögum um sjúkratryggingar en ekki er fjallað sérstaklega um stöðu flóttafólks í lögum um málefni innflytjenda. Fram til ársins 2021 var ekki til staðar formlegt móttökukerfi fyrir flóttafólk sem kom til landsins á eigin vegum heldur eingöngu fyrir flóttafólk sem kom hingað í boði stjórnvalda í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Skýringin á því er sú að þar til fyrir skemmstu var um að ræða tiltölulega fámennan hóp. Vel hefur verið staðið að móttöku kvótaflóttafólks sem hingað kemur í boði stjórnvalda en ekki er síður þörf á að veita þeim einstaklingum sem hingað koma á eigin vegum stuðning við að stíga sín fyrstu skref í samfélaginu með aukinni félagslegri ráðgjöf, samfélagsfræðslu og íslenskunámi. Þá hefur samsetning hópsins orðið sífellt fjölbreyttari en á síðasta ári komu ekki eingöngu þessir tveir fyrrnefndu hópar heldur einnig einstaklingar sem komu sérstaklega í boði íslenskra stjórnvalda vegna þess neyðarástands sem skapaðist við valdatöku talíbana í Afganistan.

Í samræmi við stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar og þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda var unnið að því að samræma móttöku flóttafólks óháð því hvernig það kemur til landsins. Fyrir liggur að allt flóttafólk hefur þörf fyrir aukinn stuðning til að stíga fyrstu skrefin í nýju samfélagi. Skýrsla nefndar um samræmda móttöku flóttafólks kom út í janúar 2019. Í þeirri skýrslu var lagt til samræmt móttökukerfi fyrir flóttafólk og er framlagning þessa frumvarps liður í því.

Tillögum nefndarinnar um samræmda móttöku flóttafólks má skipta í þrjár meginstoðir. Í fyrsta lagi að félagsmálaráðuneytið geri samninga við móttökusveitarfélög um aukna aðstoð og þjónustu við flóttafólk sem felst m.a. í að skipa málsstjóra í málum einstaklinga til að tryggja samfellu í þjónustu sem byggir á einstaklingsmiðaðri áætlun. Nú hafa verið gerðir samningar við fimm sveitarfélög og er reynsluverkefni hafið. Í öðru lagi var það tillaga nefndarinnar að Vinnumálastofnun fái aukið hlutverk og annist samfélagsfræðslu og íslenskukennslu fyrir flóttafólk, veiti náms- og starfsráðgjöf auk aðstoðar við atvinnuleit og aðra virkni. Vinnumálastofnun býður nú upp á umfangsmikla samfélagsfræðslu fyrir flóttafólk auk íslenskunáms. Alls voru 597 einstaklingar með vernd hérlendis í þjónustu hjá Vinnumálastofnun á síðasta ári. Af þeim voru 513 í atvinnuleit og tæpur helmingur þeirra hóf störf á því ári. Í þriðja lagi eru það tillögur nefndarinnar að Fjölmenningarsetur fái aukið hlutverk sem felst í að tengja saman flóttafólk og móttökusveitarfélög sem gert hafa samning við félagsmálaráðuneytið. Þetta frumvarp tekur á þessu síðastnefnda atriði.

Virðulegi forseti. Með frumvarpi þessu er Fjölmenningarsetri falið aukið hlutverk í samræmi við tillögur nefndar um samræmda móttöku flóttafólks. Fjölmenningarsetri er falið að veita sveitarfélögum faglega ráðgjöf varðandi móttöku flóttafólks og sinna fræðslu til fagaðila. Nýtt hlutverk stofnunarinnar verður að halda utan um boð móttökusveitarfélaga, um búsetu og þjónustu, byggt á þeim upplýsingum sem fyrir liggja og með tilliti til ákveðinna þátta, svo sem möguleika á námi, aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, atvinnutækifærum og samgöngum. Fjölmenningarsetur þarf í þessum tilgangi að hafa aðgang að nauðsynlegum upplýsingum, annars vegar um móttökusveitarfélögin og hins vegar um einstaklingana sjálfa frá Útlendingastofnun og sveitarfélögunum eftir því sem við á. Mikilvægt er að kveðið sé skýrt á um heimild Fjölmenningarseturs til upplýsingaöflunar og miðlunar þannig að stofnunin geti sinnt þessu nýja hlutverki sínu. Dæmi um slíkar upplýsingar eru grunnupplýsingar um einstaklinga er varða menntun, fjölskylduhagi, fyrri atvinnuþátttöku, framtíðarvæntingar og heilsufarsupplýsingar.

Líkt og fyrr var greint frá er reynsluverkefni hafið og taka fimm sveitarfélög þátt í því. Sveitarfélögin veita einstaklingum sem fengið hafa vernd aukinn stuðning til að stíga sín fyrstu skref í samfélaginu og öllum þeim sem hafa fengið vernd frá 1. mars 2021 hefur staðið til boða að taka þátt í verkefninu. Þeim einstaklingum sem fengu vernd eftir 1. mars 2020 og voru búsettir í þeim sveitarfélögum sem taka þátt í verkefninu var einnig boðin þátttaka í reynsluverkefninu. Þó að verkefnið gangi að flestu leyti vel þá háir það árangri þess að Fjölmenningarsetur hefur ekki enn fengið nauðsynlega heimild til vinnslu persónuupplýsinga. Það veldur því að móttakan verður ekki jafn markviss og annars hefði orðið. Mikilvægt er því að þetta frumvarp verði samþykkt svo að Fjölmenningarsetur geti sinnt því hlutverki að tengja saman einstaklinga og móttökusveitarfélög til að aðlögun gangi sem best fyrir sig.

Í frumvarpinu er einnig lögð til breyting á 4. gr. laganna er fjallar um innflytjendaráð. Með uppskiptingu velferðarráðuneytisins í árslok 2018, í heilbrigðisráðuneyti annars vegar og félagsmálaráðuneyti hins vegar, féll brott fulltrúi frá ráðherra heilbrigðismála í ráðinu. Þar sem hlutverk ráðsins er að stuðla að samhæfingu og samráði milli ráðuneyta, sveitarfélaga og innan stjórnsýslunnar er mikilvægt að fulltrúi ráðherra heilbrigðismála eigi sæti í ráðinu og því er lagt til að bætt verði úr þessu.

Frumvarpið var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og bárust tvær umsagnir. Þá fékk frumvarpið umfangsmikla og góða umfjöllun í velferðarnefnd þegar það var lagt fram á síðasta þingi og færi ég nefndinni þakkir fyrir vandaða umfjöllun. Í kjölfarið voru gerðar breytingar á því frumvarpi sem hér er lagt fram þannig að skerpt var á hlutverki Fjölmenningarseturs og skilgreint betur hvaða aðilar falli undir samræmda móttöku. Þá hafa verið gerðar breytingar á kostnaðarmati frumvarpsins í ljósi reynsluverkefnisins. Í upphafi var gert ráð fyrir að tveir starfsmenn myndu annast samræmda móttöku hjá Fjölmenningarsetri en í ljós hefur komið að þörf er á þremur starfsmönnum auk þess sem nú hefur verið gert ráð fyrir túlka- og fræðslukostnaði. Þess má geta að frá upphafi verkefnisins hafa yfir 1.000 einstaklingar tekið þátt í verkefninu um samræmda móttöku flóttafólks. Reynsluverkefnið hefur sýnt fram á mikilvægi þess að vel sé tekið á móti einstaklingum sem fá vernd hér á landi og undirstrikar nýr stjórnarsáttmáli þessarar ríkisstjórnar að samræmd móttaka flóttafólks verði styrkt enn frekar.

Með frumvarpinu er lagt til að fært verði í lög að Fjölmenningarsetur veiti sveitarfélögum faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf í tengslum við móttöku einstaklinga með vernd, en til að tryggja farsæla aðlögun þarf jafnframt að vera gott samstarf ríkis og sveitarfélaga um þjónustuna.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar.