152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[16:59]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Eins og ég sagði hér áðan er um afar einfalt mál að ræða og ég vona svo sannarlega að við í þessum sal förum ekki að flækja efni frumvarpsins eða teygja það út fyrir það sem það snýst um. Málið snýst einfaldlega um það að veita Fjölmenningarsetri heimild til að fara með persónuupplýsingar þeirra einstaklinga sem um ræðir, einfaldlega til þess að auðvelda þeim hópi sem hingað er kominn, hvort sem er á eigin vegum eða á vegum íslenskra stjórnvalda, í gegnum kvótaflóttamannakerfið, leiðina í gegnum okkar stjórnkerfi. Það er mikilvægt að það fólk sem hingað kemur fái eins góða þjónustu og hægt er hjá okkur. Þessi samræmda móttaka, og það að styrkja Fjölmenningarsetur í þeim verkefnum sem hér eru talin upp til að sinna því verkefni, er afar jákvætt skref, er mikilvæg og góð breyting á þessu kerfi.