152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[17:39]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég og hv. þingmaður séum sammála um ansi margt í þessu. Ég veit að ég brenn fyrir þessu málefni vegna þess að þarna er fólk sem hefur ekki tækifæri til að láta í sér heyra og hefur ekki tækifæri til að segja hversu illa er farið með það. Ég er hræddur um að það góða starf sem við vinnum fyrir kvótaflóttamenn, sú góða ímynd sem það hefur veitt, eyðileggist við þá slæmu ímynd sem við fáum af því hvernig tekið er á móti hælisleitendum. Ég vil ekki að það gerist.

Hv. þingmaður ræddi um þetta ákveðna frumvarp. Jú, ég get skilið að það þarf að gefa möguleika á að persónuupplýsingar komist þarna á milli til að hægt sé að veita betri þjónustu. En það er bara brotabrot af öllu því sem þarf að takast á við í öllu þessu ferli. Mér finnst svolítið verið að byrja á afturendanum í stað þess að laga sjálft kerfið þegar kemur að þessu. Að lokum skiptir það líka rosalega miklu máli að þessi mál eru enn þann dag í dag tætt á milli ráðuneyta. Það hvenær viðkomandi flyst yfir á milli ráðuneyta er meira að segja enn óljóst. Hvenær á að kvarta um það við hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra og hvenær við hæstv. dómsmálaráðherra? Við vitum það ekki enn en vonandi lærum við það, enda er listi yfir heiti ráðuneyta og ráðherra kominn hingað í púltið.