152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:08]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég styð 48 tíma regluna heils hugar. Ég kom inn á það í ræðu minni hér áðan. Það hefur gefið góða raun í Noregi og ég hef áður sagt það hér að við eigum að horfa til reynslu Norðurlandaþjóðanna þegar kemur að þessum málaflokki. Þau hafa náttúrlega mun lengri reynslu en við og það er nú orðin stefna í þessum löndum, bæði í Svíþjóð og Danmörku, að herða regluverkið. Það er ekki langt síðan stjórnvöld í Danmörku lýstu því yfir að stefnan væri sú að enginn hælisleitandi kæmi þangað. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni, sem ég veit að þekkir þennan málaflokk mjög vel, að það er ekki boðlegt að það skuli taka marga mánuði að afgreiða umsóknir. Það er hvorki boðlegt fyrir þann sem sækir um né þann sem borgar uppihald, skattgreiðendur, viðkomandi einstaklinga í þá mánuði, allt upp í ár, sem það tekur að afgreiða umsókn. Það sjá það allir. Þess vegna er mjög mikilvægt að þessu verði breytt og kerfið verði gert skilvirkara. Ég trúi því að hv. þingmaður sé algjörlega sammála mér í því.

Það er margt sem þarf að laga í þessu kerfi og við eigum að sammælast um það hér, hv. þingmenn, að sníða það af sem þarf að laga. Við erum líka að hugsa um hag skattgreiðenda þegar kemur að þessu. Það er nú einu sinni þannig að okkur ber að hugsa um hvað skattfé almennings fer í og hægt er að nýta peningana með mun skilvirkari og betri hætti en gert er í dag þegar kemur að þessu kerfi. Ég er talsmaður þess að laga það og breyta því og ég er talsmaður þess að fylgja stefnu annarra Norðurlanda í þessum efnum.