152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[19:10]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir ræðuna. Mig langaði að mörgu leyti að taka undir það sem kom fram í máli hennar frekar en endilega að andmæla því og benda á það sem ég gleymdi að nefna áðan, ég var búin að hugsa það en gleymdi að setja það í mína ræðu, og varðar öflun persónuupplýsinga. Það er auðvitað alltaf hægt að afla persónuupplýsinga með samþykki fólks. Ef fólk samþykkir að veita aðgang að persónuupplýsingum sínum þá er það ekki vandamál. Ég tel rétt að hafa í huga, þegar verið er að veita stjórnvöldum mjög víðtækar heimildir til þess að vinna persónuupplýsingar og flytja þær sín á milli, að það er kannski ekki alltaf þörf á því.

Annað sem má ekki verða, og þarf að passa við vinnslu svona frumvarps og uppbyggingu svona kerfis, er það sem ég las einmitt líka út úr orðum hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur, að við þurfum að passa upp á að vera búin að hugsa út hvað við ætlum að gera ef fólk t.d. vill ekki veita aðgang að persónuupplýsingum. Það þarf að hafa raunverulegan möguleika til að halda í sitt vantraust til stjórnvalda, sem er oft ríkara hjá fólki sem kemur frá ríkjum þar sem stjórnendum er enn minna treystandi en hér, og kannski sums staðar annars staðar. Það má ekki verða skylda í reynd að veita stjórnvöldum aðgang að viðkvæmustu persónuupplýsingum fólks. Það eru gríðarlega viðkvæmar persónuupplýsingar sem koma fram við meðferð umsókna fólks um alþjóðlega vernd. Það verður að vera tryggt að fólk geti fengið þá þjónustu sem á þarf að halda án þess að samþykkja eitthvað sem ekki er þörf á eða eðlilegt að ætlast sé til að það samþykki.