Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

lögfræðiálit vegna ÍL-sjóðs.

[13:54]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég sit í allsherjar- og menntamálanefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en ekki í fjárlaganefnd og horfi því á þetta mál pínulítið utan frá. Hins vegar hljómar þetta eilítið kunnuglega og það veldur mér ákveðnum vonbrigðum. Nú er ég tiltölulega ný á þinginu og mér hefur þótt nefndarstarfið ganga mjög vel hingað til. Hins vegar finnst mér farið að bera á ákveðnum vinnubrögðum í þessa áttina. Það eru ákveðnar ástæður gefnar fyrir því að ekki sé orðið við þessari einföldu beiðni. Þetta er mjög einföld beiðni; nefndin óskar eftir minnisblaði, lögfræðilegu áliti um einhverja ákveðna hluti. Nefndin þarf ekki að vinna þetta álit sjálf þannig að þetta snýst ekki um að þetta sé of mikil vinna fyrir nefndina. Í rauninni er það eina sem nefndin þarf að gera er að senda tölvupóst og vísa í rétt lagaákvæði. Þetta er einföld beiðni, hún er málefnaleg en svörin sem koma við þessari beiðni valda svolitlum áhyggjum, þ.e. að það sé of dýrt og tímafrekt og að málið sé ekki í vinnslu í nefndinni. Og í hvert skipti sem ástæðurnar eru hraktar þá kemur ný ástæða. Ég verð bara að segja að ég tek undir þessar áhyggjur, mér finnst hryggilegt að sjá þetta. Ég hef áhyggjur af þessu. Þó að ég sitji ekki nákvæmlega í þessari nefnd þá virðist þetta vera svolítið landlægt hér, því miður.