Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[14:15]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Gærdagurinn var um margt merkilegur að mínu mati og upplýsandi. Það er ekki hægt að skilja orð ráðherra, sem féllu hér í þingsal í gær, öðruvísi en svo að þau telji skýrslu Ríkisendurskoðunar duga. Sérstaklega er ég þá að beina orðum mínum til Vinstri grænna. Það er lítil þörf á rannsóknarnefnd að þeirra mati. Skoðun Seðlabanka Íslands, sem þau ætla að fela sig tímabundið á bak við, tekur eingöngu til söluráðgjafa og starfsfólks fjármálafyrirtækja. Skoðunin tekur ekki til framkvæmdarvaldsins, ekki til ráðuneyta og ekki til Bankasýslunnar. Af hverju segi ég þetta? Jú, ég er að kalla eftir skýrri sýn ríkisstjórnarinnar þegar kemur að sölu bankanna og það eru miklir hagsmunir undir. Gert er ráð fyrir að söluandvirði Íslandsbanka á næsta ári verði 75 milljarðar og við þurfum á því fjármagni að halda til að greiða niður skuldir, til að byggja upp innviði. Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum atvinnulífsins mun það þýða, ef við frestum sölunni og taka þarf lán fyrir þessum 75 milljörðum, 4 milljarða til viðbótar sem falla á annars há vaxtagjöld ríkissjóðs, einn hæsta og mesta kostnaðarliðinn.

Fyrir okkur sem viljum losa um þessa eignarhluti er þetta ótrúlega bagalegt. Það er sárt og það er súrt að ríkisstjórnin hafi haldið þannig á málum að trúverðugleiki og traust þings og þjóðar sé ekki mikið þegar kemur að bankasölu. Söluferlið er komið í uppnám og það á vakt Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Varðandi Vinstri græn, sem bera líka ábyrgð á þessu, þá skiptir máli að við fáum skýr svör frá þeim. Það liggur allt fyrir að þeirra mati. Það þarf ekki frekari rannsókn. Við hljótum að fá að vita hver svör Vinstri grænna eru varðandi frekari sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Eða er það svo að ríkisstjórnin virðist enn og aftur ekki geta tekið skýra afstöðu eða stefnu í þessu máli eins og svo allt of mörgum öðrum? Þykir ríkisstjórninni enn og aftur best að slá erfiðum ákvörðunum á frest, humma málið fram af sér, bíða af sér storminn, til að halda ríkisstjórnarsamstarfinu gangandi?