Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

aðdragandi stofnunar framtíðarnefndar.

[14:31]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. Jakobs Frímanns Magnússonar hér áðan um framtíðarnefndina svokölluðu þá má ég til með að halda nokkrum sögulegum staðreyndum til haga. Hv. þingmaður sagði að að frumkvæði Katrínar Jakobsdóttur hefði framtíðarnefnd verið komið á fót. Með því er þurrkuð út forsaga þess máls. Birgitta Jónsdóttir var fyrst til að nefna framtíðarnefndina í þessum sal við umræðu um fjárlög í desember 2015. Það var ekki einu sinni hennar hugmynd heldur hugmynd þeirra sem komu slíkri nefnd á fót í Finnlandi 20 árum áður. Hún sáði hins vegar því fræi að slík nefnd gæti verið til gagns fyrir íslenskt Alþingi, íslenska þjóð, íslenskan almenning og framtíðina. Þremur árum síðar var komið á fót framtíðarnefnd sem var fóstruð innan forsætisráðuneytisins. Og við skulum ekki gera lítið úr þætti hæstv. forsætisráðherra varðandi það en verkið á hún ekki ein. Hugmyndina á hún ekki heldur og frumkvæðið ekki heldur. Ef við ættum að nefna fleiri nöfn til viðbótar þá má nefna Smára McCarthy, þáverandi þingmann Pírata, sem stýrði framtíðarnefndinni frá árinu 2018 og til kosninganna þar á eftir sem formaður og lagði grunninn að því starfi sem þar er unnið í dag. Þannig að það að tala núna eins og þessi hugmynd hafi sprottið fullmótuð út úr kolli hæstv. forsætisráðherra án aðkomu annarra er ekki alveg rétt hjá hv. þingmanni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)