Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[14:53]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson vekur hér athygli á atriði sem skiptir auðvitað máli í þessari umræðu. Ég lít svo á að okkur beri á hinu háa Alþingi að virða sjálfstæði ríkisendurskoðanda og þær ákvarðanir sem hann tekur. Ríkisendurskoðandi er trúnaðarmaður Alþingis og skilar sínum skýrslum til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Við getum hins vegar haft þá skoðun að það sé kannski ekki eðlilegt að ráðherra geti beðið trúnaðarmanns Alþingis um skýrslu. Það kom t.d. fram í samtölum okkar við systurnefnd okkar í Stórþinginu nú í haust, í nágrannalandi okkar Noregi, að þar tíðkast það ekki og myndi aldrei gerast að ráðherra bæði ríkisendurskoðanda um slíka skýrslu. Nú er það svo að í hverju landi myndast ákveðnar hefðir þótt lög og lagasetning sé sambærileg og ég held að það sé mjög mikilvægt að við hv. þingmenn temjum okkur að virða sjálfstæði annarra aðila, og þá er ég auðvitað sérstaklega með ríkisendurskoðanda í huga í þessu samhengi, en við þurfum auðvitað líka að standa vörð um sjálfstæði Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Um það mikilvæga mál hafa verið skrifaðar lærðar skýrslur sem liggja frammi og þingmenn geta kynnt sér. En ég hef kosið að treysta mati ríkisendurskoðanda. Við kusum hann, hann er ríkisendurskoðandi og hann er trúnaðarmaður Alþingis.