Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[14:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni sem formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrir ágæistyfirferð yfir málið á þessu stigi. Ég vil bera upp spurningu hér sem varðar algjört grundvallaratriði í þessu máli. Spurningin er þessi: Telur formaður nefndarinnar að ríkisendurskoðandi hafi unnið það verk sem óskað var eftir og hann síðar féllst á að vinna sem var að meta það hvort sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum? Eða er formaðurinn að gefa í skyn að þetta verk hafi bara alls ekki verið unnið, að slegið sé upp einhverjum fyrirvara í skýrslunni um að þetta falli bara utan verksviðs ríkisendurskoðanda? Þegar vísað er til þess í skýrslunni að öðrum aðilum sé í ákveðnum tilvikum falið að lögum að hafa eftirlit með öðrum þáttum sem falla utan verksviðs ríkisendurskoðanda þá getur ekki verið að formaðurinn sé að vísa til kjarna málsins. Fylgdi ráðherrann lögum? Var ferlið lögum samkvæmt? Var góðum stjórnsýsluháttum fylgt? Eða er formaður nefndarinnar virkilega að hefja umræðu um skýrsluna á þeim nótum að verkið hafi ekki verið unnið? Ég bara spyr mig vegna þess að hér er ítrekað verið að vísa í þetta orðalag. Ég vek athygli á því að í lögum um ríkisendurskoðanda er það beinlínis hlutverk hans að vekja athygli á atriðum sem fela í sér frávik frá lögum, sbr. 3. gr. laga um ríkisendurskoðanda. Og má ég vekja athygli á 16. gr., um upplýsingagjöf til þingsins, þar sem segir, með leyfi forseta: (Forseti hringir.)

„Ef ríkisendurskoðandi verður í störfum sínum áskynja um stórvægileg mistök eða afbrot stjórnvalds eða aðila sem fellur undir starfssvið hans getur hann þó ætíð gefið Alþingi sérstaka skýrslu um málið og eftir atvikum hlutaðeigandi ráðherra.“

Hér eru (Forseti hringir.) slík grundvallaratriði undir. Ég held að við verðum að hefja umræðu um svona stórt mál á réttum fæti.