Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[15:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ráðuneytið tók enga pósitífa ákvörðun, sérstaka ákvörðun um að gera neitt annað en það sem Bankasýslan sjálf lagði til, sem var að bjóða hæfum fjárfestum að taka þátt. Hv. þingmaður segir hér: Þetta fór allt einhvern veginn allt öðruvísi, þessir smáu fjárfestar sem samkvæmt útlistun hv. þingmanns höfðu ekki bolmagn til að taka þátt, tóku bara útboðið yfir, ef mætti skilja þessi orð rétt. En þetta er alrangt. Þetta er algjör rangtúlkun á niðurstöðu útboðsins. Tæp 97% af úthlutun fóru til þeirra sem voru að bjóða meira en 50 milljónir. 97%. Aðrir eru alger jaðartilvik, 3,3% fóru til þeirra sem buðu minna en 50 milljónir. Um hvað erum við þá að ræða hérna? Að sjálfsögðu var tilboðsbókin byggð upp á tilboðum frá stórum fjárfestum. Hverjir eru annars stærstu fjárfestarnir í bankanum? Hverjir eru á topp tíu-listanum, aðrir en stofnanafjárfestar, stórir alþjóðlegir fjárfestar og aðrir slíkir, nákvæmlega eins og hv. þingmaður segir að hafi verið eðlilegt?