Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[15:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Líkt og ég hef rakið hér í dag þá eru tveir stórir erlendir aðilar meðal tíu stærstu hluthafa í bankanum. Þeir eru það í dag, þeir eru ekki allir farnir í leit að skjótfengnum gróða, eins og hér er haldið fram. En ef menn myndu gefa sér tíma til að lesa greinargerð mína til þingsins þá er á bls. 7 hægt að sjá öll þau atriði sem verið er að ræða hér um. Það stendur ekki hér á bls. 7 að við ætlum eingöngu að sækja hæsta verð í sölunni. Nei, það er talið upp hvernig við séum að sækja mörg markmið með þessari sölu, m.a. að fá virka samkeppni, hámarka endurheimtur — já, að sjálfsögðu, en líka stuðla að fjölbreyttu og heilbrigðu eignarhaldi, dreifðu, auka fjárfestingarmöguleika fyrir innlenda einstaklinga og fagfjárfesta og ekki síst minnka skuldsetningu ríkisins. Öll þessi atriði komu til skoðunar. Þau lágu öll fyrir fyrir fram skjalfest, umrædd í fleiri en einni þingnefnd og það eru eftiráskýringar ef menn halda að ráðherrann hafi ekki verið með það á hreinu gagnvart öllum þeim sem vildu fylgjast með að verðið myndi ekki eitt ráða.