Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[15:42]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú bara þannig að það kom fram í skýrslunni að hægt hefði verið að selja bréfin á markaðsverði, að tilboð bárust fyrir því á söludegi 22. mars. Ég spyr aftur: Var forsvaranlegt að leggja áherslu á að halda erlendu fjárfestunum inni, að leggja svona mikla áherslu á það með því að lækka verðið, þegar sagan sýnir að þeir selja alltaf nokkrum dögum síðar? Það er gömul saga og ný að erlent fjármagn kemur aðeins til Íslands þegar skyndigróði stendur til boða. Þetta sáum við í upphaflegu útboði á bréfum Íslandsbanka. Erlendir fjárfestar keyptu bréfin og seldu nokkrum dögum síðar með gróða. Þetta sáum við bankahruninu. Hrægammarnir keyptu kröfur föllnu bankanna á hrakvirði og kreistu svo hverja krónu sem þeir gátu út úr þrotabúunum. Í ljósi þessarar sögu, hvers vegna var svo mikil áhersla lögð á það, af hálfu ráðherra og Bankasýslunnar, að halda söluverðinu lágu, eða alla vega þetta lágu, til að fæla ekki burtu erlenda fjárfesta? Þessir sömu fjárfestar seldu jú hlutina sína aðeins nokkrum dögum eftir uppgjörið. Var það þetta „annað en hátt verð“ sem verið var að sækjast eftir með þessum veitta afslætti?