Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[15:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætt að hæstv. fjármálaráðherra skuli rifja upp hvernig þetta er allt til komið, það mætti gera meira af því og bera saman við aðrar lausnir sem þá var boðið upp á. En svo skiptir auðvitað miklu máli hvernig með þetta allt er farið. Nú hafa hæstv. ráðherra og Bankasýslan legið undir ámæli fyrir að selt hafi verið á verðinu 117 kr. á hlut og hugsanlega hefði verið hægt að fá 118 kr., jafnvel 120 kr. Það leiðir hugann að fyrra útboðinu þar sem viðmiðunargengið, sem lagt var upp með, var á bilinu 71 kr. upp í 79 kr. Það var selt á 79 kr. á hlut og margföld eftirspurn eftir því. Eftir það hækkaði verðið strax mjög verulega og hratt og hefur aldrei farið aftur neitt í námunda við þessar 79 kr.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Í ljósi þessarar reynslu nú hefði hæstv. ráðherra viljað framkvæma fyrra útboðið á öðrum tíma eða með öðrum hætti?