Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[15:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vildum við ekki öll hafa keypt hlutabréf í Apple 1997? Ég verð bara að svara þessari spurningu með því að segja: Það er ekki hægt að líta um öxl og segja: Í ljósi þess sem gerst hefur í millitíðinni hefði ekki verið betra að selja síðar? Ég held að þetta hafi verið góð ákvörðun þegar hún var tekin. Það finnst mér vera aðalefni máls. Ég fagna því sem hv. þingmaður vekur athygli á, sem er upphafið að þessu öllu saman. Reyndar var ég í hópi þeirra sem höfðu efasemdir um að það væri gott að taka þessi hlutabréf Íslandsbanka, ég hefði heldur viljað fá staðgreiðslu strax í upphafi. En það var ekki í boði og skilmálarnir sem við vorum með í stöðugleikaframlögunum leiddu til þeirrar niðurstöðu að það var betra fyrir ríkissjóð að taka bankann, og við höfum svo aldeilis haft ávinning af því.

Ég ætla bara að svara þessu aftur á þennan veg: Ég held að við höfum gert rétt í bæði skiptin, bæði í almenna útboðinu og í því sem átti sér stað á þessu ári.